Leikföng og skipulag

Notaðu körfur og geymslubox fyrir leikföng

Körfur og geymslubox eru nauðsynlegur fylgihlutur í öllum barnaherbergjum. Í stað þess að raða dóti beint í hillur, ofan í skúffur eða inn í skápa er gott ráð að nota körfur og geymslubox sem að geta farið inn í hillurnar, ofan í skúffurnar eða inn í skápana. Þannig er hægt að grípa með sér körfu úr barnaherberginu og inn í annað rými og jafn auðveldlega taka það saman aftur og ganga frá því að leik loknum.

 

Með því að nota körfur er líka auðvelt að búa til skipulag fyrir barnið, flokka leikföng þannig að sé auðvelt að finna það sem leitað er að í miðjum leik.

Með lokuðum hirslum er einnig auðvelt að breyta ævintýralegum leikvelli í rólegan og afslappaðan stað fyrir nóttina og svefninn.

Keyptu körfur sem eru fallegar hvar sem er á heimilinu

Þó að barninu finnist kannski það sem er í skærum litum eða skreytt með teiknimyndapersónum fallegast af öllu er það ekki það sem þú vilt endilega hafa fyrir augunum í stofunni þinni.

Einföld lausn á þessu er að velja körfur og geymslubox út frá heildarmynd heimilisins og í hlutlausum litum sem ganga hvar sem er. Skilja einfaldlega skæru litina og eftirlætispersónurnar eftir inni í barnaherberginu og ofan í körfunum.

 

 

 

 

 

 

 

Skilgreindu eina körfu sem fljótandi körfu

Fljótandi karfan er karfa sem að sómir sér vel í aðalvistarverum heimilisins og hennar hlutverk er að vera tóm svo hægt sé að grípa í hana og sópa saman dóti sem safnast saman hér og þar um heimilið fljótt og vel. Karfan er síðan tæmd inni hjá barninu og allir hlutir settir á sinn stað.

 

Gerðu ráð fyrir leikföngum þar sem barnið leikur sér

Þó að börnin eigi sér herbergi er það nú þannig að þau vilja oftast leika sér nálægt foreldrum sínum, sérstaklega ef þau eru að dunda sér ein. Það er því óumflýjanlegt að leikföngin dreifist um allt heimilið.

Í stað þess að dótið fljóti um allt er góð lausn að gera ráð fyrir barninu í þeim rýmum sem það leikur sér í. Það getur verið skúffa í eldhúsinu fyrir liti, púsl, blöð og perlur. Net fyrir gúmmíendur og kafbáta á snaga inni á baði. Karfa á gólfinu við hliðina á sjónvarpssófanum með því sem að barnið hefur mestan áhuga á þá stundina. Ein hilla í bókahillu með pláss fyrir körfur eða geymslubox.

Ef að leikföngin eiga sér samastað er auðvelt að grípa til þeirra og ganga frá þeim á sinn stað að leik loknum.

 

Gerðu pláss fyrir þig inni hjá barninu

Ef þú vilt kenna barninu þínu að leika sér inni herberginu sínu án þess að vera leikfélagi þess á gólfinu þarftu að gera ráð fyrir því að geta boðið upp á nærveru þína. Stór púði sem hægt er að halla sér að þegar setið er á gólfinu eða þægilegur stóll og pláss til að leggja frá sér kaffibollann í einu horni herbergisins er allt sem þarf.

Gefðu þér tíma og pláss til að fara með barninu inn í herbergið, leggðu frá þér símann því hann er áhugaverður fyrir barnið, lestu bók eða blað, sötraðu kaffi eða vertu einfaldlega til staðar.

Taktu til, grisjaðu og hentu reglulega

Börn nota leikföng til að prófa sig áfram í heiminum og þau eru mikilvægur hluti af þroska þeirra. Eftir því sem þau þroskast, sjálfstraustið vex og persónuleikinn mótast breytast þarfirnar og áhuginn á leikföngum.

Sum leikföng fylgja börnum lengi en önnur staldra skemur við. Það er mikilvægt að fara reglulega yfir leikfangasafnið og taka það frá sem að barnið notar ekki lengur, geyma fyrir yngra systkini, selja eða gefa.

Afmælisdagurinn og jólin koma einu sinni á ári og þá stækkar leikfangahrúgan oft allverulega og eitthvað nýtt og spennandi bætist í safnið. Oft er það þannig að ofgnótt er ekki það besta fyrir barnið. Ef það er of mikið af valkostum og öllu ægir saman getur verið erfitt fyrir barnið að velja sér viðfangsefni og fara í leik.

Það er gott ráð að byrja á því að taka hluti frá, úr augnsýn og athuga hvort barnið sakni þeirra. Það getur líka verið gott ráð að hafa barnið með í ráðum og fá það til að samþykkja að eitthvað fari í burtu. En þá er líka mikilvægt að virða skoðanir barnsins ef það vill ekki sleppa einhverjum hlut.

 Myndir: www.calivintage.com, www.herrarefur.is